Eitt umtalaðasta dómsmál Egyptalands

Fimm egypskir blaðamenn hafa verið sektaðir fyrir að fjalla um eitt umtalaðasta dómsmál síðari ára í Egyptalandi, þvert á óskir dómarans. Einn auðugasti og valdamesti maðurinn í Kaíró er ásakaður um að hafa látið myrða kærustu sína, fyrrverandi poppstjörnu.

Milljarðamæringurinn Hisham Telaat Moustafa neitar að hafa látið myrða kærustu sína, líbönsku söngkonuna Suzanne Tamim. Hún fannst látin í íbúð sinni í Dubaí síðasta sumar en hún hafði verið skorin á háls og stungin margsinnis.

Maðurinn sem er ásakaður um sjálfan verknaðinn er lífvörður Moustafa sem vann áður sem lögreglumaður. Saksóknari heldur því fram að Moustafa hafi borgað honum 230 milljónir til að myrða Tamim, þar sem hún neitaði að giftast honum.

Moustafa er ekki bara auðugur viðskiptajöfur heldur er hann meðlimur í demókrataflokknum sem er við stjórnvölinn í landinu. Þá eru hann og forseti landsins, Hosni Mubarak, vinir. Tengsl valdamikilla viðskiptajöfra við stjórnmálamenn hafa gegnum tíðina valdið mikilli reiði meðal egypsks almennings. Það kom því töluvert á óvart þegar pólitískri friðhelgi hans var aflétt og hann var færður fyrir dómara.

Vegna þess hve málið þykir viðkvæmt ákváðu stjórnvöld að banna fjölmiðlum að fjalla um það - nokkuð sem þau hafa gert oft áður til að forðast umfjöllun um óþægileg mál. Hinsvegar virðist ekkert stöðva egypska fjölmiðla þessa dagana sem fjalla gríðarlega mikið um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka