Fimm fórust við gangahrun

Palestínumaður gengur framhjá munna smyglganga á Gaza.
Palestínumaður gengur framhjá munna smyglganga á Gaza. Reuters

Fimm Palestínumenn fórust í dag þegar smyglgöng milli Gaza svæðisins og Egyptalands hrundu yfir þá, að sögn lækna. Ekki lágu fyrir nánari upplýsingar um þá sem fórust.

Margir hafa farist þegar göng undir landamærin hafa fallið saman, en hundruð slíkra ganga hafa verið grafin. Þannig fórust fjórir við gangahrun þann 22. febrúar síðastliðinn. 

Smyglgöngum undir landamæri Gaza og Egyptalands hefur fjölgað mjög frá því í júní 2006 þegar skæruliðar frá Gaza fóru yfir ísraelsku landamærin og tóku ísraelskan hermann til fanga. Eftir það var umferð yfir landamærin takmörkuð mikið, líkt og landamærastöðin við Rafah þar sem farið er til Egyptalands.

Jarðgöngin eru notuð til að smygla vörum og vopnum inn á Gaza-svæðið. Ísraelsmenn hafa takmarkað allan innflutning á svæðið nema hjálpargögn síðan Hamas-samtökin tóku þar við stjórn í júní 2007.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert