Óttast áhrif bankakreppu í A-Evrópu

AP

Fjármálakreppan virðist nú vera að mynda mestu skil á milli Austur og Vestur-Evrópu frá hruni Járntjaldsins, samkvæmt því sem fram kemur í danska blaðinu Politiken í dag.

Þar segir bankar í vestanverðri álfunni hafi nú að mestu lokað fyrir lán til austurhluta hennar enda sjái Danske Bank, Nordea og aðrir bankar sem eiga rætur í vestanverðri álfunni nú fram á gríðarlegt tap vegna starfsemi sinnar í Austur-Evrópu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Það má enn afstýra hruni en það er þó ekki hægt að líta framhjá hættunni á gjaldþroti ríkisbanka í nokkrum löndum í austri. Það ógnar bankakerfum nokkurra ríkja í vestri,” segir Steen Bocian yfirhagfræðingur Danske Bank.

Danske Bank á 40 milljarða danskra króna í útlánum og fjárfestingum í Austur-Evrópu, þar af 30 milljarða á Balkanskaga þar sem áhrif kreppunnar eru hvað mest. Hefur þetta skapað mikla óvissu um rekstrargrundvöll bankans.

Aðrir norrænir bankar eiga hlutfallslega enn meiri fjárfestingar í Austur-Evrópu. Samkvæmt upplýsingum Bank for International Settlement (BIS) eiga Nordea og sænsku bankarnir Swedbank og SEB samanlagt 650 milljarða danskra króna í útlánum og fjárfestingum í löndunum á Balkanskaga, í Póllandi og Rússlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert