Telja Írana geta smíðað sprengju

Mike Mullen.
Mike Mullen. Reuters

Yfirmaður bandaríska herráðsins segir að Íranar ráði yfir nægu kjarnakleyfu efni til að smíða kjarnorkusprengu. Er þetta í fyrsta skipti, sem bandarískir embættismenn hafa gefið yfirlýsingar af þessu tagi.

„Já, við teljum það hreinskilnislega," sagði Mullen í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN þegar hann var spurður hvort Íran réði yfir nægu efni til að smíða sprengju. „Og ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að það sé afar, afar slæm niðurstaða fyrir svæðið og allan heiminn."

Til þessa hafa Bandaríkin og Evrópuríki lýst áhyggjum af því, að Íranar ráði brátt yfir nægu auðguðu úrani til að framleiða kjarnorkuvopn. Yfirlýsingar Mullens ganga lengra.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hefur lagt fram skýrslu, þar sem segir að Íranar hafi aukið framleiðslu á auðguðu úrani. Segir stofnunin, að Íran ráði  nú yfir 1010 kíló af auðguðu úran hexaflúoríði sem hefur verið framleitt í Natanz.

Íranar hafa ávallt vísað því á bug, að þeir áformi að smíða kjarnorkusprengju og segjast vilja þróa kjarnorkutækni til að framleiða rafmagn fyrir landið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert