Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti er hún ávarpaði ráðstefnu um uppbyggingu Gasasvæðisins í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í morgun að Bandaríkjastjórn hafi ákveðið að veita Palestínumönnum 900 milljón dollara fjárstyrk.
Þá sagði hún sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir að peningarnir færu um hendur Hamas-samtakanna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
Clinton greindi ekki frá því hvernig peningunum verði skipt en talsmaður hennar Robert A. Wood, sagði í gær að um þriðjungi upphæðarinnar færi til hjálparstarfa á Gasasvæðinu og tveir þriðju hlutar hennar til þróunarverkefna á Vesturbakkanum.
„Það er ekki hægt að skilja á milli viðbragða okkar við neyðarástandinu á Gasasvæðinu og umfangsmikilla aðgerða okkar til að stuðla að friði í Miðausturlöndum,” sagði Clinton á ráðstefnunni.
„Með því að grípa strax til aðgerða getum við snúið því neyðarástandi sem nú ríkir upp í tækifæri til að nálgast sameiginleg markmið okkar."
Hamas samtökunum, sem tóku völdin á Gasasvæðinu árið 2007, var ekki boðið að senda fulltrúa til ráðstefnunnar en yfirlýstur tilgangur hennar er að ræða og samræma uppbyggingarstarf á Gasasvæðinu.