Hættulegasta starf í heimi

Sjómennska er hættulegasta starf í heimi eftir því sem fram kemur í nýrri skýrslu matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO. Þar segir að um 15 milljónir manna stundi sjómennsku en um 24 þúsund sjómenn deyi í vinnuslysum á hverju ári.

Í skýrslu matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að þúsundir dauðsfalla í sjómennsku megi rekja til vanhæfni og mannlegra mistaka. Dánartíðnin er hærri meðal sjómanna en námaverkamanna og skógarhöggsmanna.

Alþjóðavinnumálastofnunin áætlar að 2 milljónir manna deyi árlega í vinnuslysum. Í um 80% tilvika sé um að kenna mannlegum mistökum, vanrækslu og vanhæfni en lélegur aðbúnaður vegi þungt þegar kemur að vinnuslysum á sjó.

„Flest dauðaslys á sjó verða þegar skip sekkur, þá ferst oftar en ekki öll áhöfnin eða stór hluti hennar. Aðrar ástæður eru þegar skipi hvolfir eða sprengingar um borð,“ segir Jeremy Turner, sérfræðingur hjá FAO og einn skýrsluhöfunda.

Turner segir kröfur um sífellt meiri sparnað, skortur á þjálfun, slæm veðurskilyrði og þreyta séu einnig algengar skýringar dauðaslysa á sjó. Í síðasttalda tilvikinu fjúki allar reglur um öryggi út í veður og vind.

Turner segir hættulegustu aðstæðurnar skapast í Norðausturhluta Kyrrahafs, Norður Atlantshafi og Norðursjó.

Fiskafli heimsins var um 110 miljónir tonna árið 2006, eftir því sem segir í skýrslu FAO. Stærstu fiskveiðiþjóðir heims eru Kína, Perú og Bandaríkin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert