Börn sem eru óhamingjusöm í æsku eru líklegri til að eiga meira og minna stöðugt við veikindi að stríða þegar þau vaxa úr grasi. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem vísindamenn við King's College í London unnu á 7.100 einstaklingum sem fæddir voru á árunum 1950-1955 og greint var frá á fréttavef BBC.
Reyndust þeir sem kennarar höfðu lýst sem „vansælum“ eða „óhamingjusömum“ fimm sinnum líklegri til að vera frá vinnu vegna lélegrar heilsu er þeir voru komnir á miðjan aldur. Sögðu vísindamennirnir þessi börn einnig líklegri til að greinast þunglynd.
Rannsóknin, sem var fyrst birt í British Journal of Psychiatry, var unnin á þúsundum barna sem ólust upp í Aberdeen á sjötta áratug síðustu aldar. Höfðu kennarar verði spurðir út í skapgerð og mætingu þessara nemenda.
Leituðu rannsakendur fólkið síðan uppi er það var komið á miðjan aldur og spurðu út í stöðu þeirra á vinnumarkaði.
392, eða 5,5% aðspurðra, reyndust ófærir um vinnu vegna varanlegar örorku eða slæmrar heilsu. Fjórðungur þeirra sem að kennararnir höfðu lýst sem „virðist oft vera vansæll, óhamingjusamur, grátgjarn eða áhyggjufullur,“ var nú annað hvort öryrki eða stöðugt veikur.
Fjórðungur þeirra sem kvartaði um verki og sársauka var einnig fjarverandi frá vinnu vegna slæmrar heilsu. Þeir sem að hins vegar höfðu verið mikið fjarverandi frá skóla vegna slæmrar heilsu í æsku reyndust er á fullorðins ár var komið engu líklegri til að vera frá vinnu vegna veikinda.
„Við getum ekki sagt að þessi tilhneiging í æsku sé ástæða slæmrar heilsu seinna á lífsleiðinni, en hún virðist svo sannarlega hafa áhrif,“ hefur BBC eftir Dr Max Henderson sem fór fyrir rannsókninni. „Með tilliti til fyrri rannsókna þá grunar okkur að þessum hópum sé hættara við þunglyndi og kvíða sem er algeng ástæða fyrir fjarvistum frá vinnu.“