Rafmagnsleysi í óveðri á Austurströndinni

Hörð hríð með miklu snjómagni gekk yfir austurströnd Bandaríkjanna í morgun. Veðrið hafði í för með sér að rafmagnslínur slitnuðu, tafir urðu á umferð og skólum var lokað en mikill kuldi einkenndi veðurfar allt frá suðurríkjunum og upp til Maine.

Búist var við að snjófall í norðurríkjunum yrði víða meira en 30 sm. Íbúar New Yorkborgar birgðu sig því margir upp af mat á sunnudag á meðan að borgaryfirvöld fjölguðu snjóplógum og saltbílum í umferð. Varaði yfirmaður heilbrigðismála borgarinnar borgarbúa við að búast mætti við mestu hríð það sem af væri árinu og umferð yrði erfið.

Borgarstjóri Washington, Adrian Fenty, lýsti þá yfir neyðarástandi í höfuðborginni vegna snjókomu á sunnudagseftirmiðdag, nokkrum tímum áður en byrjaði að snjóa. Flestir skólar í Washington voru því lokaðir í dag og rúmlega 23,200 heimili og fyrirtæki bjuggu við rafmagnsleysi. Ekki var vitað hvenær rafmagn kæmist á að nýju. „Eins og er eru vegir ófærir fyrir bíla okkar,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Ken Holt, talsmanni Dominion Virginia Power orkuveitunnar. Búist var við að snjókoma í borginni næði 25 sm, sem er það mesta í þrjú ár.

Hærri snjólögum var þó von á í Massachusetts, Rhode Island og Philadelphiu en á síðastnefnda staðnum mátti búast við að vindhraði næði 48 km á klukkustund.

Snjókoman kom íbúum Suðurríkjanna þá nokkuð á óvart og áttu snjóplógar í vanda með að ryðja vegi, flugfélög frestuðu ferðum og fjöldi árekstra varð á götum, enda ökumenn margir óvanir færðinni.

Búist var við að snjólög í Washington yrðu þau mestu …
Búist var við að snjólög í Washington yrðu þau mestu í þrjú ár. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert