Bílasala hrynur í Bandaríkjunum

AP

Bílasala í Bandaríkjunum dróst saman um 41% í febrúar og hefur ekki verið minni síðan í desember 1981. Talsmaður General Motors segir að salan hjá GM hafi ekki verið minni síðan árið 1967 eða í 42 ár. Samdrátturinn var ögn minn hjá japönskum bílaframleiðendum í febrúar.

„Við sjáum ekki fram á aukningu fyrr en í fyrsta lagi á síðasta fjórðungi ársins 2009,“ segir Efraim Levy, sérfræðingur hjá Standard & Poor's.

General Motors, stærsti bílaframleiðandi Bandaríkjanna sem í desember fékk neyðarlán frá ríkissjóði upp á 13,4 milljarða dollara, hefur nú beðið um 16,6 milljarða dollara lán til viðbótar. GM hefur nú tilkynnt að framleiðslan verði dregin saman um þriðjung.

Samdrátturinn hjá Ford nam 48% í febrúar og markaðshlutdeild Ford minnkaði niður í 13,9%, borið saman við 15,7% í febrúar 2008. Ford áformar að draga úr framleiðslu um tæp 40% á öðrum fjórðungi þessa árs.

Samdrátturinn hjá Chrysler nam 44% í febrúar. Chrysler fékk fjögurra milljarða dollara neyðaraðstoð í janúar en hefur nú farið fram á fimm milljarða dollara til viðbótar. Þrátt fyrir samdrátt þá jókst markaðshlutdeild Chrysler lítillega frá janúar til febrúar.

Chrysler virðist hafa náð markaðshlutdeild frá Toyota en hlutdeild Toyota í bílasölu í Bandaríkjunum minnkaði úr 17,9% í janúar í 15,9% í febrúar.

Sala japanskra bíla í Bandaríkjunum dróst saman um 37% í febrúar en Hyundai segir söluna hafa dregist saman um 2,6%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert