Þýsk kona var í dag dæmd í átta ára fangelsi fyrir að hafa myrt tvö barna sinna og falið lík þeirra í plastpokum en sýknuð af því að hafa myrt það þriðja. Lík barnanna þriggja fundust á þremur stöðum í bænum Plauen seint á árinu 2007. Eitt líkið fannst í blómapotti á svölum, eitt í ferðatösku á heimili ömmu konunnar og það þriðja í frysti í íbúð sem móðirin hafði eitt sinn búið í.
Börnin, allt stúlkur, létust á árunum 2002, 2004 og 2005. Dánarorsök þeirra er óljós þar sem lík þeirra voru svo illa farin. Móðirin, Susan F. 29 ára, sagði að hún hefði ekki myrt stúlkurnar heldur hafi þær látist skyndilega.
Konan á einnig tvo syni, fædda árið 2000 og 2006. Talið er að faðir þeirra sé sá sami en hún átti í ástarsambandi við hann í tíu ár. Hann sagðist við yfirheyrslur ekki hafa vitað um tvær þunganir þar sem hann hafi verið svo oft í burtu vegna vinnuferðalaga.
Yfirvöld hafa harðlega gagnrýnt félagsþjónustu bæjarins fyrir að hafa ekki veitt móðurinni aðstoð en hún flutti í níu skipti á einungis nokkrum árum og fæddi tvö barnanna heima án nokkurrar aðstoðar. Þjóðverjar eru miður sín vegna fjölda frétta af mæðrum sem hafa myrt börn sín.Meðal annars var Sabine Hilschenz dæmd fyrir að hafa myrt átta börn sín. Hún faldi líkamsleifar þeirra í fötum og blómapottum auk fiskikars á heimili foreldra sinna.