Alþjóða stríðsglæpadómstóllinn í Haag gaf nú eftir hádegið út handtökuskipun á hendur Omar Hassan al-Bashirs, forseta Súdans, fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu í Darfurhéraði í Súdan. Ekki er hins vegar ákært fyrir þjóðarmorð þar sem ekki þóttu vera nægar sannanir fyrir hendi til að styðja slíka ákæru.
Laurence Blairon, talsmaður dómstólsins, sagði að al-Bashir væri grunaður um að bera glæpsamlega ábyrgð á því að beina árásum á hluta íbúa Darfurhéraðs. Hann bæri ábyrgð á morðum, nauðgunum og pyntingum. Þá hefði földi fólks verið hrakinn úr heimkynnum sínum og eignir þess verið gerðar upptækar.
Bæði Afríkusambandið og Rússland hafa gagnrýnt handtökuskipunina og segja hana ógna friðarferlinu í Súdan.
Þetta er í fyrsta skipti sem sitjandi þjóðhöfðingi ríkis sætir ákæru fyrir stríðsglæpi frá því stríðsglæpadómstóllinn tók til starfa árið 2002. Ekki er búist við, að forsetinn láti ákæruna á sig fá og muni sitja sem fastast í valdastóli.
Al-Beshir rændu völdum í Súdan árið 1989. Hann hefur síðan gætt þess vel að missa ekki stjórn á her landsins og lykilmenn í hernum eru allir handgengnir forsetanum og því ólíklegir að rísa gegn honum. Sumir þeirra eiga raunar einnig yfir höfði sér ákærðu vegna hernaðarins í Darfur.