Kveðjum og hvatningarorðum rignir nú yfir Hells Angels-samtökin á heimasíðu samtakanna í Danmörku en samtökin eiga nú í hatrammri baráttu við glæpasamtök innflytjenda í undirheimum Kaupmannahafnar. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Fram kemur í frétt blaðsins að það komi sérfræðingum hvað mest á óvart að svo virðist sem hversdagslegir góðborgarar hafi skipað sér í lið í baráttu gengjanna, líkt og um fótboltaleik sé að ræða. Á heimasíðunni má m.a. sjá skilaboðin: „Þið eruð strákarnir okkar” og „Þið getið treyst á okkar stuðning.”
Ritstjóri heimasíðunnar segir að einungis hluti skilaboðanna hafi verið birtur, þar sem þau séu ritskoðuð, til að draga úr kynþáttafordómum og ofbeldisáróðri, og tími hafi ekki gefist til að fara í gegnum nema lítinn hluta þeirra.
Þá segir hann að svo virðist sem fólk telji sig öruggara þegar samtökin ráða undirheimunum þar sem almenningur þekki til þeirra og viti að þau hafi í gegn um tíðina leitist við að halda almenningi frá átökum sínum.