Fyrsti vændiskaupandinn fyrir rétt

Oslóarlögreglan að störfum
Oslóarlögreglan að störfum Aftenposten/ROLF ØHMAN

Í apríl mun í fyrsta skipti reyna á ný lög í Noregi sem  banna vændiskaup, því búið er að stefna 36 ára gömlum manni fyrir rétt í Osló fyrir að kaupa sér þjónustu vændiskonu. Um áramótin gengu í gildi lög sem byggð eru á fyrirmynd sænskra laga um vændiskaup. Samkvæmt þeim eru kaup á vændi ólögleg, en sala á vændi hinsvegar ekki.

Átak var gert hjá norsku lögreglunni í kjölfarið og voru alls 22 menn handteknir í janúar í grunaðir um vændiskaup, en enginn hefur enn mætt fyrir rétt. Maðurinn sem um ræðir nú var handtekinn þann 9. janúar í bíl ásamt félaga sínum og tveimur konum, sem taldar eru vera vændiskonur. Mennirnir höfðu þá gert samning um kaup á kynlífsþjónustu kvennanna en ekki hafði komið til framkvæmda þar sem lögreglan skarst í leikinn. Hinn grunaði hefur neitað sök og mun því mæta fyrir rétt, en félagi hans samþykkti að greiða sekt upp á 7.500 norskar krónur, um 140 þúsund íslenskar krónur.  Saksóknari krefst 9.000 króna sektargreiðslu af manninum ellegar 18 daga fangelsisvistar. Réttarhöldin fara fram þann 21. apríl.

Vændiskonur sem nást í rassíum norsku lögreglunnar þurfa ekki að svara til saka heldur er þeim boðin fræðsla og læknismeðferð fyrir þær sem eiga við áfengis- eða vímuefnavanda að stríða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert