Hópur franskra femínista verðlaunaði í dag erkibiskupinn af París sem „Karlrembu ársins“ fyrir þau ummæli sín að það væri ekki nóg fyrir konur að vera í pilsi, heldur þyrftu þær líka „eitthvað á milli eyrnanna.“
Hópurinn Les Chiennes de garde sem telst einn berorðasti kvenréttindahópur í landinu, veitti biskupinum verðlaunin tveimur dögum fyrir alþjóðlega kvennadaginn.
Önnur verðlaun hlaut síðan grínistinn Fabrice Eboue fyrir að segja í frönsku sjónvarpi að „femínismi væri ekki bara fyrir ráðríkar og kynsveltar konur heldur líka fyrir lesbíur.“
Erkibiskupinn, Andre Vingt-Trois, lét verðlaunaummælin falla í umræðu í útvarpsþætti i nóvember sl. um það hversu erfitt væri að ráða konur til starfa innan kaþólsku kirkjunnar. Vöktu orð hans upp öldu mótmæla.
„Það er erfitt að finna konur sem eru rétt þjálfaðar. Það er ekki nóg að vera í pilsi, þær verða líka að hafa eitthvað á milli eyrnanna,“ sagði biskupinn.
Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum og kvaðst hafa átt við að kynið skipti ekki máli þegar verið væri að ráða fólk til starfa innan kirkjunnar heldur hæfni einstaklingsins.