Barack Obama Bandaríkjaforseti á bókað stefnumót við Elísabetu Englandsdrottningu í apríl, að sögn BBC. Obama mun nýta tækifærið þegar hann sækir efnahagsfund G8 ríkjanna til að sækja drottninguna heim í Buckingham höll. Konungsfréttaritari BBC segir að myndin af þjóðhöfðingjunum tveimur saman verði sennilega söguleg.
„Þetta verður stuttur en eftirtektarverður fundur á milli Bandaríkjaforseta sem hefur þá setið í embætti í 70 daga, og breskrar drottningar sem hefur lifað í gegnum seinni heimsstyrjöldina, kalda stríðið og hryðjuverkaógn samtímans,“ segir konungsfréttaritarinn Peter Hunt. „Myndin af þeim tveimur saman verður sennilega söguleg. Drottningin hefur séð fjölmarga bandaríkjaforseta fara í og úr embætti.“
Elísabet drottning hitti forvera Obama, George Bush, alls fjórum sinnum og þar á meðal í Hvíta húsinu sem hún heimsótti 2007. „Það var nýstárleg reynsla fyrir hana. Þegar George Bush mismælti sig í ræðu þá blikkaði hann til drottningarinnar.“