„Þetta komst nærri því að rústa lífi mínu,“ segir Robert Murat, maðurinn sem um tíma var grunaður um aðild að hvarfi bresku stúlkunnar Madelaine McCann á Portúgal árið 2007. Dagblöð í Bretlandi slógu í kjölfarið upp fréttum um aðild hans og sagði Murat, sem gaf í gærkvöldi út sína „fyrstu og einu“ opinberu yfirlýsingu um málið, að æsifréttamennskan hafi verið afar skaðleg honum og þeim sem standa honum næstir.
Murat ávarpaði málfund í Cambridge háskóla sem haldinn var undir heitinu „Við trúum því að slúðurblöð geri meiri skaða en þau gera gott.“ Hann lýsti því fyrir áheyrendum að honum hefði liðið eins og „ref sem væri eltur af hundahópi, eins og fastur á milli skáldsögu eftir Kafka og kvikmyndarinnar Enemy of the State með Will Smith.“
Hann sagði ásakanirnar á hendur honum vera uppspuni og lygar frá rótum sem þöktu hverja dagblaðaopnuna á fætur annarri, í stað þess að nýta þær til að reyna raunverulega að finna dóttur bresku læknahjónanna Kate og Gerry McCann. Hann sagði að í kjölfar þessarar lygaherferðar hefði honum borist haturspóstur frá ókunnugum og persónulegar hótanir. Móðir hans, unnusta, dóttir og fyrri eiginkona hafi allar verið í gíslingu á eigin heimili vegna umsáturs fjölmiðla.
Aldrei ákærður - en dæmdur í slúðurblöðum
Murat, sem er búsettur í Portúgal, blandaðist fyrst inn í málið þegar hann bauðst til að þýða vitnayfirlýsingar á meðan rannsókninni stóð. Murat segir að ein bresk blaðakona hafi verið „svo áköf í að skúbba í málinu“ að hún hafi hreinlega búið það til. „Hún reyndi að sannfæra portúgölsku lögregluna um að ég hafi hagað mér mjög grunsamlega,“ sagði Murat.
Fullyrt var að hann væri kynferðisglæpamaður sem hefði setið um sumardvalarhús McCann hjónanna, að DNA efni hans hefði fundist á stað glæpsins, að á heimili hans væri leyniklefi - allt saman uppspuni til þess gerður að auka sölu og hagnað blaðanna að sögn Murat.
„Ég þekki núna af eigin, slæmu reynslu hvað slagorðið „láttu aldrei sannleikann standa í vegi fyrir góðri sögu“ þýðir í raun,“ sagði Murat við troðfullan sal Cambridge nema. Hann nefndi m.a. að ættingjum hans hefði verið boðnar himinháar upphæðir fyrir að staðfesta klúrar sögur um hann. Robert Murat var síðasta sumar dæmdar bætur í skaðabótamáli sem hann höfðaði gegn dagblöðunum sem ásökuðu hann um verknaðinn. Portúgalska lögreglan lagði aldrei fram ákæru á hendur Murat þótt hann hafi um tíma haft réttarstöðu grunaðs manns.