N-Kórea: Herinn undirbýr sig fyrir bardaga

Hermenn í Norður Kóreu í dag
Hermenn í Norður Kóreu í dag Reuters

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa fyrirskipað hernum að vera tilbúinn fyrir bardaga en síðar í dag hefst sameiginleg heræfing Bandaríkjahers og hers Suður-Kóreu. Segja stjórnvöld í N-Kóreu æfinguna ekki vera annað en stríðsyfirlýsingu. Hafa þau hótað því að skjóta niður farþegaflugvélar sem fljúga yfir landið.

Ríkin á Kóreuskaganum hafa iðulega deilt, en hótunin var tekin það alvarlega að stóru flugfélögin tvö í Suður-Kóreu tóku enga áhættu og breyttu flugleiðum véla sinna og síðan tilkynnti Singapore Airlines að það myndi gera slíkt hið sama, að því er fram kom í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í gær.

Bandaríkjamenn og Suður-Kórea hafa árum saman haldið heræfingar og Norður-Kórea lýst yfir því að þær væru „aðdragandi innrásar og kjarnorkustyrjaldar“.

Undanfarnar vikur hefur Norður-Kórea hins vegar þráfaldlega hótað að ráðast á Suður-Kóreu. Einnig er því haldið fram að norður-kóresk yfirvöld undirbúi nú að skjóta langdrægustu sprengjuflaug sinni í tilraunaskyni í trássi við bann Sameinuðu þjóðanna við slíkum tilraunum. Þau segja að til standi að skjóta á loft gervihnetti og það sé hluti af geimáætlun Norður-Kóreu.

Ekki er langt síðan samskiptin milli Norður- og Suður-Kóreu virtust vera á batavegi. Efnt var til samstarfs af ýmsum toga og Suður-Kórea sendi aðstoð til Norður-Kóreu. Nú hefur tortryggnin aftur náð yfirhöndinni og það eina, sem eftir er af samstarfinu er sérstakt iðnaðarsvæði í Norður-Kóreu. Ástæðan fyrir því að það er enn starfrækt er að þar verða til útflutningstekjur, sem Norður-Kórea getur ekki verið án.

Bandaríkjamenn eru með 28 þúsund hermenn í Suður-Kóreu undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. Á mánudag ræddust við yfirmenn úr norður-kóreska hernum og bandarískir herforingjar úr sveitum Sameinuðu þjóðanna í Suður-Kóreu í fyrsta skipti í sjö ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert