Olígarkar á barmi gjaldþrots

Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands.
Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands. Reuters

Olígarkarnir svonefndu, sem stórauðguðust á einkavæðingunni í Rússlandi eftir hrun Sovétríkjanna, ramba á barmi gjaldþrots vegna gífurlegra skulda, að sögn The New York Times. Blaðið segir að stjórnvöld í Kreml séu treg til að koma auðkýfingunum til hjálpar.

Olígarkarnir reka mörg af stærstu fyrirtækjum landsins, meðal annars í kola- og járniðnaði, og eignuðust þau í forsetatíð Borís Jeltsíns. Fyrirtækin hafa átt í miklum erfiðleikum frá því að fjármálakreppan hófst á liðnu ári og rússnesk stjórnvöld komu þeim til hjálpar með skammtímalánum til að afstýra því að fyrirtækin kæmust í hendur útlendinga. Nú er aftur komið að skuldadögum og útlit er fyrir að fyrirtækin lendi í vanskilum.

Seðlabanki Rússlands áætlar að fyrirtæki og bankar landsins þurfi að endurgreiða 128 milljarða dollara á þessu ári einu og The New York Times hefur eftir bankamönnum að margir olígarkanna geti ekki staðið í skilum.

Nokkrir auðkýfinganna eru orðnir svo örvæntingarfullir að þeir fóru á fund Dmítrís Medvedevs, forseta Rússlands, með tilboð sem hefði verið óhugsandi fyrir kreppuna. Þeir buðust til þess að sameina fyrirtæki, meðal annars nokkrar af stærstu námum og verksmiðjum Rússlands, í eina risastóra samsteypu undir stjórn ríkisins. Í staðinn myndi ríkið leggja til fé sem notað yrði til að greiða skuldir við vestræna banka.

Rússnesk stjórnvöld virðast vera treg til að taka tilboðinu. Fái fyrirtækin ekki aðstoð ríkisins er líklegt að mörg þeirra verði gjaldþrota og síðan þjóðnýtt með einhverjum hætti, að sögn The New York Times.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert