Ungir innflytjendur á Norðurbrú leita á saklausum vegfarendum, meina sumum að fara inn í hverfið, fólk sem færir öldruðum mat er stöðvað og rekið burt. „Borg óttans,“ var fyrirsögn á grein í norsku blaði um höfuðborg Danmerkur. Breska stjórnin varaði í vikunni fólk við að ferðast til Kaupmannahafnar, enda hafa verið gerðar þar um 70 skotárásir á götunum síðustu sjö mánuðina og þrír hafa látið lífið.
Tortryggnin ræður ríkjum meðal innflytjenda í hverfinu, hver veit nema sakleysislegur borgari sé með byssu innanklæða, sé útsendari Vítisengla eða stuðningsfélags þeirra, AK81? Um tíma var félagsmiðstöðvum og bókasöfnum á svæðinu lokað, skothelt gler er nú í gluggum leikskólanna.
Innflytjendurnir, flestir múslímar, eru margir fullir af vænisýki, finnst að þeir séu ekki bara að berjast gegn liðsmönnum Vítisengla (Hells Angels) sem græða mikið á fikniefnaviðskiptum, heldur öllu samfélaginu. Ungmennin kunna ekki að greina þarna á milli, segir Ahmet Demir, uppeldisfræðingur sem stundar ráðgjöf fyrir sveitarfélög um félagslega vandamál ungs fólks.
Fíkniefnasalar í innflytjendagengjunum grafa sína eigin gröf með ofbeldinu. Þeir eru margklofnir og ekki jafn vel skipulagðir og Vítisenglar. Athygli yfirvalda beinist nú meira að þeim en áður. Og þegar blöðin hafa eftir talsmönnum gengja að nú styttist í að skotið verði á lögreglumenn er ögrunin orðin of mikil.
Íhaldsmaðurinn Brian Mikkelsen innanríkisráðherra segir að nú sé mælirinn fullur. Hann hefur sett fram tillögupakka þar sem m.a. er veitt aukin heimild til að hlera farsíma og hefur fjölgað í lögreglunni. Mikkelsen fær stuðning hjá hinum stjórnarflokknum, Venstre, sem vill herða vopnalöggjöf.
Athygli vekur að hægri-vinstri skiptingin gildir ekki lengur. Nýja stjarnan á vinstrivængnum, Villy Søvndal, leiðtogi Sósíalíska þjóðarflokksins, er sammála Mikkelsen.
Danir eru felmtri slegnir. Sumir rifja upp óöldina Chicago á bannárunum í Bandaríkjunum þegar sprúttsalinn Al Capone og flokkar hans skutu mann og annan. Fáir taka hins vegar undir hugmyndir þeirra sem vilja stöðva ólöglegu viðskiptin með því að leyfa hass og fullyrða að grunnurinn að átökunum hafi verið lagður með því að loka Pusher Street í Kristjaníu á tíunda áratugnum. Þar hafi hasssalan verið einangruð en nú sé hún stunduð um alla borgina.
Samlíkingin við Chicago er góð af því að fyrst og fremst er barist um markaði fyrir fíkniefni: hass. En nú óttast margir að kynþáttafordómar fari að verða mikilvægari þáttur í deilunum. Vítisenglar blása óspart í þær glæður í von um stuðning hjá almenningi og fá hann oft, það sést á bloggsíðum. En fórnarlömbin á götum úti eru oft blásaklaust fólk sem hefur þótt tortryggilegt í augum byssubófanna. Þeir skjóta fyrst og spyrja svo.