Hinn 110 ára gamli Harry Patch, sem er einn þriggja Breta sem börðust í Fyrri heimsstyrjöldinni og eru enn á lífi, hlaut í dag eina æðstu heiðursorðu Frakka í viðurkenningarskyni fyrir þær miklu fórnir sem hann hefur fært.
Franski sendiherrann í Bretlandi afhenti heiðursorðuna og lét þau orð falla að Patch væri táknmynd „hinnar æðstu fórnar sem hundruð þúsunda hermanna færðu í fyrir heimsstyrjöldinni.“ Heiðursathöfnin fór fram á hjúkrunarheimili þar sem Patch býr nú í suðvestur Englandi og var hann útnefndur liðsforingi í heiðurshersveit Frakka. Honum eru færðar sérstakar þakki fyrir framlag sitt til að halda minningunni um stríðið á lífi.
„Þrátt fyrir háan aldur hefur þú af mikilli ósérhlífni gefið þér tíma til að sinna fjölda atburða sem helgaður eru minningu þess fólks sem hver þjóð ber skylda til að heiðra. Við getum aldrei borgað þér til baka í sömu mynt en berum ótakmarkað þakklæti í brjóstum okkar,“ sagði sendiherrann þegar hann nældi orðunna í jakka Patch sem þegar ber sjö aðrar heiðursorður úr stríðinu.
Patch svaraði veikri röddu en lýsti því að hann fyndi fyrir djúpstæðu þakklæti til frönsku þjóðarinnar fyrir þann heiður sem honum væri sýndur. „Ég kann vel að meta þá miklu virðingu sem þjóð þín sýnir þeim sem féllu,“ sagði hann.
Aðeins eru þrír breskir hermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni enn á lífi að því er vitað er. Hinir tveir eru hinn 112 ára gamli Henry Allingham og hinn 107 ára gamli Claude Choules sem er búsettur í Ástralíu. Fjórði uppgjafarhermaðurinn, William Stone, lést í janúar síðastliðnum 108 ára að aldri.