75 ára gömul sýrlensk kona í Sádi-Arabíu hefur verið dæmd til að þola 40 svipuhögg, sitja fjóra mánuði í fangelsi og verður að því loknu vísað úr landi fyrir að hafa hleypt tveimur mönnum óskyldum sér inn á heimili sitt.
Samkvæmt dagblaðinu Al-Watan byrjuðu málaferlin yfir konunni, sem heitir Khamisa Mohammed Sawadi, í fyrra þegar trúarlögreglan réðst inn á heimili hennar og fann þar tvo menn, Fahd og Haidan, sem hvorugir eru blóðskyldir konunni.
Fahd, sem er 24 ára gamall, sagði lögreglunni að vera hans á heimili konunnar væri ekki ólögleg þar sem hún hefði haft hann á brjósti sem barn og samkvæmt Islam væri hann því skilgreindur sem sonur hennar. Hann væri einfaldlega að færa gömlu konunni brauð og vinur hans Haidan hefði orðið samferða honum. Lögreglan handtók eftir sem áður mennina báða.
Samkvæmt lögum í Sádi-Arabíu mega óskyldar konur og karlar ekki blanda geði hvort við annað. Samkvæmt dómsúrskurði nú þykir sannað að konan hafi ekki alið Fahd á brjósti sér sem barn. Mennirnir hlutu einnig dóm, Fahd hlaut fjögurra mánaða fangelsi og 40 svipuhögg en Hadian sex mánaða fangelsi og 60 svipuhögg.
Hin aldna Sawadi segist ætla að áfrýja dómnum enda sé Fahd sannarlega sonur hennar. Málið hefur vakið mikla reiði í Sádi-Arabíu. Kvennréttindabaráttukonan Wajeha Al-Huwaider sagði í samtali við CNN dómurinn væri óréttlátur. „Þetta hefur gert almenning mjög reiðan, vegna þess að hún er eins og amma. Fjörutíu svipuhögg - hvernig á hún að geta þolað þannig sársauka?“