Svissneskur karlmaður hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að hafa dregið nokkrar forríkar konur á tálar í þeim tilgangi að hafa af þeim fé. Helg Sgarbi, sem fjölmiðlar kalla Gleðigosann frá Sviss, játaði á sig sök. Hann gat átt von á því að hljóta 10 ára dóm.
Þekktasta fórnarlamb Sgarbi var Susanne Klatten, erfingi þýska bílarisans BMW. Sgarbi tókst að sannfæra hana um að láta sig hafa tæplega sjö milljónir evra (sem jafngildir um einum milljarði kr.)
Hann bað fórnarlömb sín afsökunar við réttarhöldin sem fóru fram í Munchen í Þýskalandi. Þá sagðist hann sjá eftir því sem hann gerði.
Ljósmyndarar umkringdu hann þegar hann gekk inn í réttarsalinn í dag. Hann sýndi engin svipbrigði þegar dómarinn kvað upp sinn dóm.
Hann er sakaður um að hafa náð að svíkja um níu milljónir evra út úr konunum.