Níu lögreglumenn í Sao Paulo í Brasilíu voru í gær ákærðir fyrir að hafa verið í dauðasveit sem í fyrra tók að minnsta kosti tólf manns af lífi, þar af fimm með því að hálshöggva þá.
Lögreglumennirnir voru handteknir eftir að vitni hafði séð þá myrða þroskaheftan mann. Vitnið skráði hjá sér bílnúmer dauðasveitarmannanna. Lögreglan hóf rannsókn í október síðastliðnum í kjölfar hrottalegra morða á meintum sakamönnum og útigangsmönnum í Sao Paulo og nágrenni. Um skeið taldi lögreglan að um væri að ræða raðmorðingja. Fimm lögreglumenn til viðbótar hafa verið handteknir vegna tengsla við dauðasveitina.