Lögmaður bandaríska fjármálamannsins Bernards Madoffs hefur staðfest að hann hyggist játa sig sekan um stórfelld fjársvik þegar hann kemur fyrir rétt á fimmtudaginn kemur. Saksóknarar í máli hans hafa lagt fram ákærur sem þeir segja varða allt að 150 ára fangelsi.
Madoff var handtekinn í desember og hefur verið í stofufangelsi í lúxusíbúð sinni í New York.
Madoff var handtekinn í desember eftir að hafa játað fyrir kunningjum sínum að hann hefði svikið 50 milljarða dala, jafnvirði 5600 milljarða króna, út úr viðskiptavinum, sem treystu honum fyrir fé sínu. Lögmenn fórnarlamba Madoffs segja, að um 3 milljónir einstaklinga og stofnana, þar á meðal stórir bankar, hafi tapað fé. Fjársvikin virðast hafa staðið yfir áratugum saman.
Svikamylla Madoffs, sem kölluð er „Ponzi-svindl“, byggðist á því að greiða fjárfestum í sjóðum fyrirtækisins arð með peningum sem nýir fjárfestar höfðu lagt inn í það. Er talið að Madoff-svindlið sé stærsta svikamál sinnar tegundar sem nokkru sinni hefur komist upp um í heiminum.
Madoff kom í réttarsal í dag til að útskýra tengsl sín við Ira Sorkin, lögmann sinn. Fjölskylda lögmannsins átti viðskipti við Madoff, sem sagðist samt ætla að halda Sorkin sem lögmanni sínum.
Játi Madoff sakir verða engin réttarhöld yfir honum en dómari mun ákveða refsingu.