Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hvatti í kvöld þjóðir heims til að gera ráðstafanir til þess að tryggja að fátæk ríki yrðu ekki uppiskroppa með matvæli vegna efnahagskreppunnar í heiminum.
Obama hvatti til aðgerðanna á fyrsta fundi sínum með Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í Hvíta húsinu. Búist er við að vandi fátækra ríkja verði ofarlega á baugi á fundi 20 iðnvelda og stórra þróunarlanda í London í byrjun næsta mánaðar. Gordon Brown, sem ræddi við Obama í Hvíta húsinu í vikunni sem leið, segist ætla að beita sér fyrir því að Alþjóðabankinn stofni sérstakan sjóð til að aðstoða þær þjóðir sem eru í mestri hættu.
Dominique Strauss-Kahn, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, varaði við því í dag að aukin fátækt gætti leitt til mikillar ólgu og óeirða í þróunarlöndum.