Fogh sagður hafa lýst áhuga á NATO

Anders Fogh Rasmussen.
Anders Fogh Rasmussen. Reuters

Danska blaðið Berlingske Tidende hefur í dag eftir heimildarmönnum, sem sagðir eru þekkja vel til mála, að Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, hafi í samtölum við evrópska þjóðarleiðtoga að undanförnu lýst áhuga á framkvæmdastjórastarfinu hjá NATO. Fogh Rasmussen hefur sjálfur ítrekað vísað fréttum af þessu tagi á bug.

Blaðið segir, að þegar danski forsætisráðherrann hitti nýlega leiðtoga Breta og  Þjóðverja að máli hafi hann lýst áhuga á því að taka við embættinu þegar Jaap de Hoop Scheffer lætur af því í ágúst.

Þýska blaðið Süddeutsche Zeitung  sagði um helgina, að þau  Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands,  Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, væru öll sammála um að styðja Fogh í embættið.

Bandaríkin hafa hins vegar ekki viljað veita Fogh Rasmussen slíkan stuðning en reiknað er með að þau lýsi því fyrir leiðtogafund NATO 3. apríl hvern þau vilja styðja. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, var í Brussel í gær og sagði þá að ekki hefði verið tekin ákvörðun um málið.

Bandaríska blaðið Washington Post segir, að Bandaríkin vilji gjarnan launa Kanadamönnum fyrir það framlag, sem þau hafa lagt til uppbyggingarinnar í Afganistan, með því að styðja Kanadamann í embættið. Með því yrði hins vegar brotin hefð í NATO, að framkvæmdastjórinn sé Evrópumaður. Jafnframt væri hægt að túlka það svo, að Bandaríkjamönnum þyki ekki mikið til framlags Dana í Afganistan koma.

Danskir fjölmiðlar sögðu einnig frá því í síðustu viku að Tyrkir muni beita neitunarvaldi gegn Fogh Rasmusen vegna skopmyndamálsins svonefnda en flestir Tyrkir eru múslimar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert