Birtar hafa verið myndir af piltinum sem stóð á bak við fjöldamorðin í Albertville skólanum í Winnenden í Þýskalandi í gær. Myndirnar eru teknar á farsímaskömmu áður en hann skaut sjálfan sig eftir að hafa verið króaður af af lögreglu. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
Fréttir af atburðarásinni voru mjög óljósar í gær en nú liggur fyrir að pilturinn skaut fimmtán manns til bana áður en hann framdi sjálfsvíg. Hann hafði þá fverið króaður af eftir eftirför lögreglu og fengið skot í fótlegginn.
Pilturinn Tim Kretschmer, var sautján ára og fyrrum nemandi við skólann. Hann mun hafa stolið morðvopninu, sem var 9mm Beretta, úr byssusafni föður síns. Níu nemendur og þrír kennarar létu lífið í árás hans.
Er hann sagður hafa ruðst inn í kennslustofu og skotið fólkið hvert af öðru beint í höfuðið. Nokkrir nemendur náðu að forða sér út um glugga eftir að árásin hófst.
Þeir sem eftir lifðu segja hann ekki hafa sagt nema eina setningu í skólastofunni : „Eruð þið nú öll dáin?”
Pilturinn skaut síðan þrjá vegfarendur til bana eftir að hann flúði úr skólanum. Hann rændi einnig bíl og tók eiganda hans nauðugan með sér á flóttanum.
Talið er líklegt að rekja megi árásina til ástarsorgar en kærasta Kretschmer hafði nýlega slitið sambandi þeirra. Átta af nemendunum sem létu lífið voru stúlkur og tveir kennaranna konur.