Litla hafmeyjan send til Shanghæ

Litla hafmeyjan hefur setið lengi við Löngulínu í Kaupmannahöfn en …
Litla hafmeyjan hefur setið lengi við Löngulínu í Kaupmannahöfn en mun nú leggja land undir sporð. AP

Borg­ar­stjórn Kaup­manna­hafn­ar samþykkti í dag með 36 at­kvæðum gegn 12 að Litla haf­meyj­an, stytta Ed­vards Erik­sens, fari í fyrstu sjó­ferð sína í tæpa öld til að taka þátt í heims­sýn­ing­unni í Sj­ang­hæ á næsta ári. Tveir borg­ar­full­trú­ar sátu hjá. 

Þetta þýðir að haf­meyj­an, sem venju­lega sit­ur við Löngu­línu, mun 1. apríl 2010 halda til Kína og sinna þar sendi­herra­störf­um fyr­ir Dani í 10 mánuði.

Klaus Bondam, einn af borg­ar­stjór­um Kaup­manna­hafn­ar, sagði við Ritzau frétta­stof­una í kvöld, að stytt­an muni án efa vekja mikla at­hygli í danska sýn­ing­ar­skál­an­um á heims­sýn­ing­unni og verða til þess að  beina sjón­um fjár­festa og er­lendra fyr­ir­tækja að Dan­mörku. 

Dan­ir eru hins veg­ar ekki all­ir sátt­ir við að Litla haf­meyj­an verði send til Kína. Ný­leg viðhorfs­könn­un bend­ir til þess að sex af hverj­um tíu Dön­um vilji að stytt­an verði áfram á steini sín­um við Löngu­línu. Litla haf­meyj­an er álit­in þjóðarger­semi og er einn helsti viðkomu­staður ferðamanna sem koma til borg­ar­inn­ar.

Heit­ar umræður urðu á danska þing­inu í nóv­em­ber þegar Danski þjóðarflokk­ur­inn krafðist þess að stjórn­in félli frá þeirri hug­mynd að senda stytt­una til Kína. Flest­ir hinna stjórn­mála­flokk­anna töldu hins veg­ar að það myndi auka straum ferðamanna til lands­ins ef Litla haf­meyj­an yrði notuð til land­kynn­ing­ar í Kína.

Ölgerðarmaður­inn Carl Jac­ob­sen gaf Kaup­manna­höfn stytt­una árið 1913. Það var ís­lensk-danski mynd­höggv­ar­inn Ed­vard Erik­sen, sem gerði stytt­una og notaði El­ine eig­in­konu sína sem fyr­ir­sætu.

Flug­völl­ur­inn í Kaup­manna­höfn, sem á minni af­steypu af Litlu haf­meyj­unni, hef­ur boðist til að lána borg­inni sína styttu svo hún geti gætt steins­ins við Löngu­línu fyr­ir stóru syst­ur sína á meðan hún er í út­lönd­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert