Páfi: Verðum að fylgjast með netinu

Breski biskupinn Richard Williamson
Breski biskupinn Richard Williamson Reuters

Benedikt páfi XVI hefur skrifað háttsettum embættismönnum kaþólsku kirkjunnar bréf þar sem hann viðurkennir að hann hafi gert mistök í tengslum við afléttingu fordæmingar biskups sem m.a. hefur staðhæft að helförin gegn gyðingum hefði aldrei átt sér stað. Þetta kemur frá má fréttavef BBC. 

Í bréfinu segir páfi að ákvörðun hans hafi verið illa rökstudd og að forsaga málsins hafi ekki verið könnuð á fullnægjandi hátt áður en ákvörðun um afléttingu fordæmingarinnar var tekin. 

„Mér hefur verið sagt að með því að skoða þær upplýsingar sem eru aðgengilegar á netinu hefði verið hægt að greina vandamálið fyrr,” segir í bréfi páfa. „Ég hef lært þá lexíu af þessu að Páfagarður verði í framtíðinni að fylgjast betur með þeirri fréttaveitu.” 

Páfi gagnrýnir þó einnig þá hörku sem hefur gætt í gagnrýni á Páfagarð í málinu. „Það hryggði mig að jafnvel kaþólikkum, sem ættu að hafa betri þekkingu á málinu, fannst þeir þurfa að ráðsast á mig af augljósri andúð,” segir hann. „Einmitt þess vegna þakka ég vinum úr hópi gyðinga enn frekar fyrir að leiðrétta misskilning og endurskapa andrúmsloft vináttu og trausts."

Breski biskupinn Richard Williamson dró í í sjónvarpsviðtali í Svíþjóð í nóvember í efa að sex millónir gyðinga hafi látið lífið í síðari heimsstyrjöldinni og sagði enga gyðinga hafa látið lífið í gasklefum. Ummæli hans vörktu hörð viðbrögð og voru m.a. fordæmd af Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.  

Páfi aflétti tuttugu ára fordæmingu Páfagarðs á Williamson og þremur öðrum biskupum í janúar. Talsmenn Páfagarðs hafa síðan sagt að páfi hafi þá ekki vitað af umræddum ummælum.

Eftir að efnt var til mótmæla vegna málsins bað Páfagarður Williamson um að draga ummæli sín til baka. Hann hefur ekki gert það en sagt að hefði hann séð fyrir hversu miklum skaða ummæli hans myndu valda hefði hann ekki sagt það sem hann sagði. Páfagarður hefur lýst þau ummæli hans ófullnægjandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert