David Cameron, leiðtogi breska Íhaldsflokksins, baðst í gær afsökunar á því að flokkurinn skyldi ekki sjá kreppuna fyrir. Blaðið Guardian segir að markmið Camerons með þessu sé að minna á að Gordon Brown forsætisráðherra, sem var fjármálaráðherra 1997-2007, skuli enn neita að bera ábyrgð.
Cameron sagði í viðtali að hann viðurkenndi að íhaldsmenn hefðu átt að gera sér grein fyrir því að bankarnir væru orðnir allt of skuldugir. ,,Það var rétt hjá okkur að gagnrýna skuldasöfnun ríkisns en við hefðum átt segja meira um skuldir bankanna og fyrirtækjanna," sagði Cameron.
Hann sagðist ekki samþykkja þá skýringu Browns að fjármálakreppan ætti rætur í undirmálslánum í Bandaríkjunum en ekki mistökum í Bretlandi sjálfu. Bankakerfið breska væri ekki aðskilið frá hagkerfi landsins, það endurspeglaði það, sagði Cameron.