Norðmenn styðja Úganda með um 400 milljónum króna, um sjö milljörðum ísl. kr., árlega og þar af renna um 65 milljónir norskra króna beint í ríkiskassa Úganda, að sögn Aftenposten. Ætlun norska þingsins er að stuðningurinn sé notaður til að ýta undir þróun og draga úr fátækt. En nú hefur komið í ljós að forseti Úganda, Yoweri Museveni, hefur keypt sér rándýra og afar vel búna einkaþotu frá Bandaríkjunum af gerðinni Gulfstream G550. Vélin kostaði 48,2 milljónir dollara sem svarar um 335 milljónum norskra króna.
Um 40% af fjárlögum Úganda eru greidd með erlendum framlögum og andstæðingar Musevenis og fjölmiðlar í landinu gagnrýndu harkalega kaupin. Ráðamenn í Ósló munu ekki hafa fundið að þessum flugvélakaupum þegar þau voru ákveðin fyrir ári og er það staðfest í viðtali við norska sendiherrann í Úganda.
Leiðtogi Hægriflokksins norska, Erna Solberg, er fokreið og segir fulla ástæðu til að gagnrýna að svo fátækt ríki eins og Úganda skuli bruðla með þessum hætti. „Þetta er dæmi um slæma stjórnarhætti og við ættum að gagnrýna þetta.“