Háttsettur liðsmaður stjórnar Baracks Obama í Bandaríkjunum segir að undrun ríki í Washington yfir þeirri ákvörðun Breta að ræða við pólitískan arm Hizbollah-samtakanna herskáu í Líbanon. Bandaríkin og Ísrael líta á samtökin sem hermdarverkasamtök.
Hizbollah hefur mikið fylgi í sunnanverðu Líbanon og nýtur fjárstuðnings Írana til að reka sjúkrahús og aðra félagslega hjálp en fær einnig vopn frá Íran. Samtökin hafa fulltrúa í samsteypustjórn Líbanon en reka einnig einkaher nokkur þúsund manna. Sá her vakti aðdáun margra araba fyrir að verjast Ísraelum í innrás þeirra 2006.
Embættismaðurinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði að sögn The International Herald Tribune, að Bandaríkjastjórn vildi fá Breta til að útskýra ,,muninn á pólitískum, félagslegum og hernaðarlegum örmum Hizbollah, af því að við sjáum ekki þessa skiptingu í sameinaðri forystu samtakanna sem þeir sjá".