Illa þefjandi stórgróði

AP

Fullyrt er að á bak við opinbert hagkerfið í hnattvæddum heimi sé nú vaxandi og gegnumrotið neðanjarðarhagkerfi. Vegna skorts á samvinnu ríkja í baráttu gegn glæpum sé komin upp undarleg staða: Landamæri hleypi í reynd í gegn glæpamönnum og illa fengnu fjármagni en lögreglumenn sem eltast við þjófana séu stöðvaðir.

Nú virðist þó einhver hreyfing vera að komast á þessi mál. Þrýstingur er víða á pólitíska ráðamenn um að koma í veg fyrir að yfirstéttin í heiminum geti falið fé sitt, komist hjá því að borga skatta og hunsað lögin.

Andstaðan er mikil, oft tregða í kerfinu og víða þybbast ríkisstjórnir við eftir getu. Sérstök samþykkt OECD gegn mútum tók ekki gildi fyrr en 1999 og samþykkt Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu 2003.

Eitt af því sem rætt verður á fundi 20 helstu iðnríkja heims í Bretlandi um helgina er aðgerðir gegn skattaskjólum. Sviss, Liechtenstein og Cayman-eyjar hafa þegar ákveðið að aflétta bankaleynd þótt enn sé óljóst hve víðtækar þær ráðstafanir verða.

Mauritius, lítil eyja við austurströnd Afríku, fjárfestir meira á Indlandi en Frakkland og Bretland. Eyjan er skattaskjól, svindlgróði stórfyrirtækis er þvættaður þar og festur á Indlandi af hálfu leppfyrirtækis undir öðru nafni. Slóðin er falin.

Þeir borga ekki

Ef eigendurnir hefðu greitt af þessu fé skatta í sama hlutfalli og algengast er á Vesturlöndum gæti verið um að ræða 250 milljarða dollara sem skattmann verður af, hér er átt við ógreidda skatta af bæði löglegum og ólöglegum innstæðum.

En skattaskjólin gegna öðru og óþrifalegra hlutverki. Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, telur að meira en helmingur allra alþjóðlegra viðskipta fari fram með aðstoð skattaskjóla og Alþjóðabankinn áætlar að hagnaður sem fluttur er milli landa og stafar af glæpastarfsemi, mútum og skattsvikum nemi árlega frá trilljón dollara upp í 1,6 trilljónir dollara. Meira en helmingurinn kemur frá þróunarríkjum.

Geysilegir fjármunir streyma stöðugt frá þróunarríkjunum yfir til iðnríkjanna. Þess má geta að öll aðstoð iðnríkjanna við þróunarríkin nemur nú árlega um 100 milljörðum dollara. Fyrir hvern dollara sem veitt er í aðstoð koma því a.m.k. 10 aftur til iðnríkjanna.

Gefið með annarri hendinni, tekið með hinni

Alþjóðleg stórfyrirtæki nota mikið þá aðferð að múta embættismönnum í t.d. Afríkulandinu sem þau eiga viðskipti við. Er séð til þess að gefið sé upp hátt, falsað verð á hráefninu sem verið er að kaupa, það getur verið kopar, olía eða eitthvað annað. Verðið þarf að henta skattabrellum fyrirtækisins. Hluti af verðinu eru auðvitað leynilegu múturnar sem eru lagðar inn á reikning í skattaskjóli, spilltur ráðherra veit að ellin verður þægileg. Innflutta varan frá Afríku er seld á lágu verði til dótturfyrirtækis, oft með leppuðu eignarhaldi, til að hagnaður virðist minni en ella. Það lækkar skattana.

En vestrænu snillingarnir lýsa í kokkteilum heima hjá sér hneykslun sinni á því hve mikið sé um spillingu í þriðja heiminum.

Mútuþegarnir græða, erlenda fyrirtækið enn meira en eftir sitja með sárt ennið blásnauðir íbúar í Afríkulandinu. Opinberlega voru tekjurnar af geysimiklum námugreftri í Austur-Kongó aðeins tæp milljón dollara 2006; smygl, verðfalsanir og stríð gera hagnað landsmanna að engu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert