Ekki hefur enn verið gripið til harðari refsinga gegn sjóræningjum úti fyrir ströndum Sómalíu en að afvopna þá og senda þá heim. Herskip frá nokkrum löndum eru á svæðinu til að stemma stigu við sjóránum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Danska herskipið Absalon er eitt þeirra herskipa sem eru á svæðinu. Áhöfn þess hefur hingað til handtekið 88 sjóræningja. Fimm eru enn í haldi Dana en 83 var sleppt lausum á ný.„Við erum orðnir raunsærri en áður,” segir skipstjórinn Dan B. Termansen, en á síðasta ári tóku dönsk yfirvöld þá umdeildu ákvörðun að láta áhöfnina sleppa fyrstu tíu sjóræningjunum sem hún handsamaði.
„Við reynum að líta til þess hvað er árangursríkast og það er ekki það að sigla um með sjóræningjana um borð. Það er að afvopna þá og senda þá heim.”Hann segist þó enn tilbúinn til að handtaka sjóræningja standi áhöfnin þá að verki við sjórán í annað sinn eða vilji yfirvöld í öðrum löndum rétta yfir sjóræningjum sem ráðast á skip þaðan.
Termansen vísar því hins vegar á bug að það hafi ekkert gildi að handsama sjóræningja sé þeim jafnóðum sleppt á ný.