Flugfélög víða um heim týndu meira en milljón ferðatöskum á árinu 2007 og sendu allt að 42 milljónir þeirra á vitlausa áfangastaði. Þrýstihópur, sem gæti útlagst á íslensku sem Neytendaráð loftferðalanga (e. The Air Transport Users Council) segir að þetta ástand sé það versta sem verið hafi á síðustu árum, en tölurnar koma fram í skýrslu frá þeim.
Samtökin segja einnig að flugfélög reyni mörg að taka á vandanum en að farþegum sé hins vegar ekki bættur skaðinn ef farangur þeirra týnist. Í skýrslunni segir að þeir þurfi oft að standa í stappi til að fá skaðann bættan.
„Ef eitthvað fer úrskeiðis eiga flugfélög að vera tilbúin til að bæta farþegunum það með sanngjörnum hætti. Flugfélög vilja ekki bæta farþegum að fullu kostnaðinn af því að kaupa nauðsynlega hluti á meðan þá vantar töskuna sína,“ segir Tina Tietjen, formaður samtakanna.
Til samanburðar voru 34 milljónir taska sendar á vitlausa áfangastaði árið 2006 og 30 milljónir árið 2005. Samtökin segja að ef spár rætist um að flugfarþegum fjölgi um allt að helming á næsta ártug gæti farið svo að þau sendi 70 milljón töskur á vitlausa áfangastaði árið 2019.