Kínverjar kaupa upp Afríku í kreppunni

Flóttamenn í Darfur-héraði í Súdan. Sumir segja að fjárfestingar Kínverja …
Flóttamenn í Darfur-héraði í Súdan. Sumir segja að fjárfestingar Kínverja í Afríku troði á mannréttindum, ekki síst í Súdan. HO

Kínverjar ætla að leggja tvo milljarða bandaríkjadollara til viðbótar í ríkisrekinn Afríku-fjárfestingasjóð sinn. Tilgangurinn er sá að grípa tækifæri sem vestrænir fjárfestar nýta sér ekki, eftir að hafa þurft frá að hverfa vegna fjárskorts. Þetta kemur fram í dagblaðinu Financial Times í dag.

Síðan hann var settur af stað árið 2006, hefur kínversk-afríski fjárfestingasjóðurinn keypt fyrir um 400 milljónir dollara í Afríku, hefur blaðið eftir sjóðsstjóranum Chi Jianxin, sem hélt ræðu í Jóhannesarborg í gær. Sagði hann að upphaflegum fjármunum sjóðsins verði þegar búið að ráðstafa fyrir lok þessa árs, tveimur árum á undan áætlun.

Hann sagði sjóðinn á mikilli ferð og að afrísk fyrirtæki þurfi meiri peninga frá sjóðnum því að aðrir fjárfestar hafi orðið feimnari. Tveggja milljarða dollara aukningin er þó aðeins annar fasinn í starfi sjóðsins, sem ætlað er að fjárfesta fyrir a.m.k. fimm milljarða dollara í Afríku áður en yfir lýkur.

Þegar sjóðurinn var stofnaður árið 2006 var markmiðið sagt það að hvetja kínversk fyrirtæki til að stunda viðskipti í Afríku. Hu Jintao, forseti Kína, sagði þá að sjóðurinn myndi styrkja tengslin milli Kína og Afríku. Hann hefur hins vegar verið gagnrýndur á Vesturlöndum fyrir að hafa slæmt áhrif á mannréttindi fólks í Afríkulöndum á borð við Súdan og Simbabve, í kaldrifjaðri viðleitni sinni til að fá aðgang að afrískri olíu og öðrum nauðsynlegum hráefnum til að viðhalda hagvexti heima í Kína.

Aðrir segja að sjóðurinn einbeiti sér að greinum sem auðveldi Afríku að þróast áfram. Til dæmis landbúnaði, raforku, vegagerð og vatnsveitukerfum.

Hu Jintao, forseti Kína, ásamt Wen Jiabao, forsætisráðherra.
Hu Jintao, forseti Kína, ásamt Wen Jiabao, forsætisráðherra. JASON LEE
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka