Ber að taka hótanir Rússa um að staðsetja sprengjuflugvélar búnar kjarnorkusprengjum á Kúbu og í Venesúela alvarlega eða er stjórnin í Moskvu aðeins að hringja aðvörunarbjöllum í Washington? Er sú yfirlýsing Dímítrí Medvedev Rússlandsforseta að endurnýja skuli heraflann vísir að frekari vígvæðingu?
Þessar og aðrar spurningar vakna eftir fréttir síðustu daga þess efnis að Rússar hyggist taka til í hernum og skipta út úreltum búnaði fyrir nýjan.
Þrátt fyrir hrun rússneska hlutabréfamarkaðarins og hríðfallandi olíuverð boðar Medvedev þannig umfangsmikla endurnýjun heraflans frá og með 2011, með það að megin markmiði að bæta viðbragðsflýti hersins, einkum hvað snertir kjarnavopnin.
Þangað til hyggst stjórnin verja sem svarar um 16.100 milljörðum króna til vopnakaupa fram til 2011 og er notkun úrelts búnaðar í Georgíustríðinu í fyrra sögð hafa vakið her og stjórnvöld til vitundar um að slík endurnýjun væri nauðsynleg.
Stefnumótunin er athyglisverð í ljósi þeirra tíðinda helgarinnar að rússnesk stjórnvöld væru að íhuga þann kost að staðsetja sprengjuflugvélar á Kúbu eða í Venesúela, þar sem þær eru í flugfæri við Bandaríkin.
Vart þarf að taka fram að slíkar flugvélar geta borið kjarnorkusprengjur.
Ekki sést frá því í kalda stríðinu
Verði þessar og aðrar fyrirætlanir rússneskra stjórnvalda að veruleika munu hernaðarlegar staðsetningar, sem ekki hafa sést frá því kalda stríðinu lauk með falli Sovétríkjanna árið 1991, verða endurvaktar.
Anatoly Zhikharev herforingi, sem fer með stefnumörkun í hernaðarlegum staðsetningum í Rússlandsher, ræddi þessar fyrirætlanir við blaðamenn á laugardag.
Fullyrti hann þar að Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefði boðið rússneska flughernum afnot af eyju með flugvelli sem vel mætti nota tímabundið fyrir rússneskar sprengjuflugvélar.
Fjórir til fimm flugvellir á Kúbu
Vék hann einnig að Kúbu með þeim orðum að þar væru fjórir til fimm flugvellir með 4.000 metra flugbraut sem vel hentuðu fyrir sprengjuflugvélarnar.Þessi áætlanasmíði fylgir í kjölfar endurvakningar á eftirlitsflugi rússneskra Tu-95 sprengjuflugvéla á Norður-Atlantshafi árið 2007, auk eftirlitsflugs hinna hraðfleygu Tu-160 orrustuvéla.
Báðar flugvélagerðir eru komnar mjög til ára sinna.
Við það bætist að það hefur valdið rússneskum herforingjum áhyggjum að skortur á áfyllingar- og viðhaldsstöðvum hafi ollið því að vélarnar geti aðeins farið í stuttar flugferðir áður en þær verða að snúa við.
Breyttar áherslur hjá Bandaríkjaher
Á sama tíma birtir bandaríska dagblaðið The Boston Globe fréttaskýringu um að Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, undirbúi veigamestu breytingarnar á heraflanum frá lokum kalda stríðsins.
Ekki liggur fyrir hvar skorið verður niður en viðbúið er að þingmenn og her hagsmunavarða muni þrýsta á ráðherrann að hlífa verkefnum þeirra við hnífnum.
Blaðið rifjar jafnframt upp þau orð Gates að bandaríski sjóherinn sé stærri en samanlagðir sjóherir næstu 13 ríkja, þar af 11 ríkja sem séu bandamenn Bandaríkjanna.
Hvað varðar ástand rússneska hersins lýsir Gates því þannig að herinn sé skugginn af því sem hann var á dögum Sovétríkjanna.
Má hér rifja upp að Gates hafði þann starfa fyrir nokkra Bandaríkjaforseta að leggja mat á slagkraft rússneska hersins.
Leið til að ná athygli Bandaríkjastjórnar
Sá tími er liðinn að rússneska hagkerfið hafi það megin hlutverk að viðhalda herstyrk í köldu stríði við Bandaríkin.
Hótanir Rússa um að staðsetja sprengjuflugvélar með kjarnavopnum í flugfæri við Bandaríkin eru því ekki teknar ýkja alvarlega.
Fjallað er um málið á vef The Christian Science Monitor þar sem rætt er við Irina Zvigelskaya, sérfræðing hjá rannsóknarstofnuninni Center for Political and Strategic Studies í Moskvu.
Að mati Zvigelskaya er hótunin leið Rússa til að ná athygli Bandaríkjastjórnar í aðdraganda samningaviðræðna í varnarmálum.
Ber þar einna hæst óánægja Rússa með stækkun Atlantshafsbandalagsins, NATO, til austurs, sem þeir telja ógn við öryggi sitt.
Aðalatriðið er þó áframhaldandi fækkun kjarnavopna.
Kjarnavopnum fækkað
Ljóst þykir að stjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta mun leggja áherslu á að fækkað verði í kjarnorkuvopnabúri gömlu kaldastríðs risaveldanna, Rússlands og Bandaríkjanna, síðar á árinu, þótt enn liggi ekki fyrir hvort stefnan verði sett á að ríkin tvö fækki kjarnavopnum niður í 1.000, hvort um sig, eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum.
Þetta er mat þriggja sérfræðinga í afvopnunarmálum sem taka þó fram að enn sé of snemmt að spá um árangurinn, nú þegar styttist í að START-I afvopnunarsamningurinn renni út í desember.
„Flestir af þeim sem er ætlað að leiða afvopnunarnefnd Obama hafa nýhafið störf. Við bindum svo sannarlega vonir við að stjórn hans muni fara þá leið að fækka kjarnaoddum í samkomulagi við Rússa,“ segir John Isaacs, stjórnandi stofnunarinnar Center for Arms Control and Non-Proliferation í Washington.
Miðað sé við báða flokkana
Inntur eftir því hversu vongóður hann sé um að Bandaríkjastjórn nái árangri í fækkun kjarnavopna á árinu bendir Issacs á að markmiðin þurfi að vera skýr.
„Til að byrja með er spurning hvaða markmið hann setur sér. Við vonumst svo sannarlega til að hann setji markið við 1.000 kjarnaodda.
Okkar sjónarmið er að í þeirri tölu eigi að miða við virka kjarnaodda sem og þá sem eru í geymslu. Samningurinn sem George W. Bush skrifaði undir árið 2002 tók aðeins tillit til virkra kjarnavopna, sem gerði Rússum og Bandaríkjunum kleift að hafa nokkur þúsund kjarnavopn á lager.
Jafnvel þótt Obama stefni að tölunni 1.000 á hann eftir að komast að samkomulagi við Rússa og hver veit hversu vel það mun ganga, með hliðsjón af stirðum samskiptum ríkjanna síðustu mánuði.
Með þetta í huga myndi ég skilgreina mig sem varfærnislega bjartsýnan um að þessu marki verði náð,“ segir Isaac, sem telur þann möguleika fyrir hendi að START-I afvopnunarsamningurinn verði framlengdur um 5 ár frá og með áramótum, með gagnkvæmu samþykki Rússa og Bandaríkjamanna.
Hefði óveruleg áhrif á Írana
Isaacs telur þá kenningu Timesað ofangreint afvopnunarskref hafi áhrif á kjarnorkuáætlun Írana og þann ásetning stjórnvalda í Teheran að smíða kjarnavopn ósennilega.
Mark Fitzpatrick, sérfræðingur hjá stofnuninni International Institute for Strategic Studies, telur einnig rétt að bíða eftir því að fullmótuð stefna Obama-stjórnarinnar í afvopnunarmálum líti dagsins ljós.
Hann býst við að afvopnunarhópur Obama einbeiti sér að arftaka START-I, sem yrði rökrétt framhald á þeim skrefum sem stigin hefðu verið frá lokum kalda stríðsins. Hins vegar telji ýmsir töluna 1.000 marka þann lágmarksfjölda kjarnavopna sem þurfi til að viðhalda ógnarjafnvæginu.
Kennette Benedict, útgáfustjóri tímaritsins Bulletin of the Atomic Scientists, kveðst bjartsýn á að Obama-stjórnin nái árangri í þessa veru, með vísun til þess að það jákvæða við niðursveifluna nú sé að hún styðji afvopnun.