Obama reiður yfir AIG hneyksli

Barack Obama hefur sagt Timothy Geithner fjármálaráðherra að leita allra …
Barack Obama hefur sagt Timothy Geithner fjármálaráðherra að leita allra leiða til að stöðva bónusgreiðslur til stjórnenda tryggingafyrirtækisins AIG. LARRY DOWNING

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagðist í nótt reiður yfir 165 milljón dollara bónusgreiðslum sem stjórnendum hins fallna tryggingarisa AIG höfðu verið lofaðir. Kallaði hann greiðslurnar hneyksli. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Það er erfitt að skilja hvernig afleiðumiðlarar hjá AIG gátu unnið sér inn einhverja bónusa, hvað þá 165 milljónir dala í aukagreiðslur,“ sagði Obama. Hann hefur gefið fjármálaráðherranum Timothy Geithner fyrirmæli um að leita allra leiða til að stöðva útgreiðslur þessara bónusa. Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins sagði einnig að björgunargreiðslur til AIG gætu breyst út af þessu, til að vernda hagsmuni skattgreiðenda. Ríkið hefur samþykkt að láta 30 milljarða dala renna til fyrirtækisins og því gæti farið svo að sú greiðsla verði einfaldlega lækkuð um 165 milljónir. Það er þó óvíst.

AIG tilkynnti þessar bónusgreiðslur á sunnudag. Barack Obama var að halda ræðu um aðgerðir til að hjálpa smáfyrirtækjum í kreppunni. „Um allt land er fólk að vinna hörðum höndum og stendur við skuldbindingar sínar á hverjum degi, án þeirra forréttinda að fá opinbera björgunarpakka eða margmilljóna dollara bónusgreiðslur,“ sagði Obama.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert