Bónusgreiðslur verði endurgreiddar

Edward Liddy, forstjóri AIG, á fundi þingnefndarinnar í dag.
Edward Liddy, forstjóri AIG, á fundi þingnefndarinnar í dag. Reuters

Edward Liddy, forstjóri bandaríska tryggingarisans AIG, segir að kaupaukar, sem yfirmenn fyrirtækisins hafa fengið greidda, séu „ógeðfelldir“. Hann hefur farið fram á það að hluti yfirmannanna greiði a.m.k. helminginn til baka. 

Liddy segir að seðlabanki landsins hafi vitað af kaupaukagreiðslunum, sem nema 165 milljónum dala. Bandarískur almenningur er afar ósáttur við þessar greiðslur og mikil reiði ríkir í samfélaginu vegna þeirra.

Á fundi bandarískrar þingnefndar sagði Liddy að fyrirtækið hafi gert gríðarlega mikil mistök. Þau væru í raun svo mikil að fáir gætu ímyndað sér stærð og umfang þeirra. 

Þá viðurkenndi hann einnig að starfsemi fyrirtækisins væri of flókin, of ómeðfærileg og of ógagnsæ.

Liddy sagði að hann hefði beðið yfirmenn AIG, sem fengu 100.000 dali í kaupaukagreiðslur eða meira, að greiða a.m.k. helminginn til baka.

Fyrirtækið hefur fengið um það bil 170 milljarða dala í ríkisaðstoð og af þeim sökum er mörgum Bandaríkjamönnum misboðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert