Forstjóri AIG ver kaupaukagreiðslurnar

Edward Liddy.
Edward Liddy. AP

Forstjóri bandaríska tryggingarisans AIG segir að „kaldur raunveruleiki samkeppninnar“ hafi knúið fyrirtækið til að greiða 165 milljónir dala í kaupaukagreiðslur. Þá segist hann skilja að þolinmæði bandarískra skattborgara, sem haldi fyrirtækinu á floti, fari þverrandi.

AIG, eða American International Group, hefur verið harðlega gagnrýnt að undanförnu. Almenningur og stjórnmálamenn, og ekki síst Barack Obama Bandaríkjaforseti, hafa beint spjótum sínum að fyrirtækinu sem þáði nýverið 180 milljarða dala ríkisaðstoð og greiddi um leið æðstu yfirmönnum fyrirtækisins 165 milljónir dala kaupauka.

Edward Liddy, forstjóri AIG, segir að besta leiðin til að skila fénu aftur til bandarískra skattgreiðenda sé að halda fyrirtækinu gangandi. Þetta kemur fram á vef Reuters.

„Enginn veit það betur en ég að AIG hefur hlotið umfangsmikla ríkisaðstoð.“ Þetta kemur fram í ummælum sem Liddy hefur undirbúið fyrir fund sem hann mun eiga með bandarískri þingnefnd síðar í dag.

„Við höfum höfum notið umburðarlyndis og þolinmæði bandarísku þjóðarinnar. Og við gerum okkur fulla grein fyrir því að við verðum að halda vel utan um það almannafé sem við höfum fengið og við gerum okkur einnig grein fyrir því að þolinmæði bandarískra skattgreiðenda er senn á þrotum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert