90% skattur á bónusgreiðslur

Mótmælendur utan við skrifstofur AIG í dag.
Mótmælendur utan við skrifstofur AIG í dag. Reuters

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í kvöld frumvarp um að 90% tekjuskattur verði lagður á kaupaukagreiðslur og bónusa starfsmanna fyrirtækja sem bandaríska ríkið hefur veitt fjárhagsaðstoð. Ástæðan er mikil reiði, sem ríkir í Bandaríkjunum vegna bónusa sem tryggingafélagið AIG greiddi strarfsmönnum í síðustu viku.

Frumvarpið var samþykkt með 328 atkvæðum gegn 93. „Við viljum peningana okkar til baka strax," sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, í umræðu um frumvarpið. „Þetta er ein aðferð til að ná þeim."

Bandarísk stjórnvöld hafa lagt AIG til 170 milljarða dala til að forða fyrirtækinu frá gjaldþroti. En nánast um leið og fyrirtækið fékk féð greiddi það starfsmönnum samtals 165 milljónir dala í bónusa, sem samið var um á síðasta ári.

90% skatturinn á við um starfsmenn, sem hafa yfir 250 þúsund dali í árslaun og vinna hjá fyrirtækjumn, sem hafa fengið meira en 5 milljarða dala úr opinberum sjóðum.

Tveir þingmenn repúblikana hafa lagt fram frumvarp í öldungadeild þingsins þar sem gert er ráð fyrir að  fyrirtæki, sem þegið hafa opinbera aðstoð, þurfi að greiða 35% skatt af bónusgreiðslum og starfsmennirnir sem fá bónustana 35% skatt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka