Rætt er um það í röðum lettneskra hagfræðinga að láta skuli landið hrynja efnahagslega eins og Ísland og hefja síðan endurreisnina frá grunni þegar lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum rennur út í haust.
Á sama tíma reyna þingmenn það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir skelfingu á meðal almennings, eins og raunin var á Íslandi fyrir áramót og á Írlandi í byrjun árs, að því er fram kemur á fréttavef The Christian Science Monitor.
Er þar rifjað upp að hinn ungi hagfræðiprófessor Dmitrijs Smirnovs hafi varað við því í ritgerð í haust að landið stefndi í efnahagslegt hrun líku því sem orðið hefði á Íslandi.
Skömmu síðar bankaði leynilögregla á dyrnar hjá honum og tók hann höndum fyrir að stuðla að þjóðfélagslegri ólgu og draga úr stöðugleika fjármálakerfisins.
„Við þurfum að hverfa frá villtum kapítalisma til einfalds kapítalisma,“ sagði Smirnovs í viðtali við CSM.