Ísraelskir hermenn saka hermenn úr sínum röðum um að hafa unnið voðaverk í átökunum á Gaza á fyrstu vikum ársins. Meðal þess sem kemur fram í vitnisburðum hermannanna er að ísraelsk leyniskytta hafi skotið á móður og barn eftir að hafa verið kallaður af vettvangi.
Skaut hann mæðginin af stuttu færi.
Þá skaut annar ísraelskur hermaður palestínska konu með köldu blóði af tilefnislausu.
Þessar frásagnir komu fram í vitnisburðum útskriftarnema ísraelska herskólans Oranim College sem tóku þátt í hernaðinum á Gaza.
Lýstu þeir atvikum frammi fyrir nýliðum í skólanum, að því er fram kemur á fréttavef breska útvarpsins, BBC.
Þykja frásagnirnar vekja spurningar um yfirlýsingar Ísraelshers um að þess hefði verið gætt að vernda óbreytta borgara á Gaza.
Með líku lagi séu ásakanir um að Hamas-liðar hafi notað mannleg skotmörk veikari ef rétt reynist að óbreyttir borgarar hafi verið myrtir af ástæðulausu.
Í þriðja tilvikinu skipaði ísraelskur herforingi að gömul palestínsk kona skyldi skotin til bana, þrátt fyrir að greinilegt væri að engin hætta stafaði af henni.
Þá fylgir sögunni að hermennirnir hafi fengið blöðunga frá rabbíum þar sem átökin hafi verið sett í trúarlegt samhengi, hermennirnir væru að vinna aftur hið heilaga land.