Páfinn gagnrýndur

Reiðiöldunni vegna þeirra ummæla Benedikts XVI. páfa að notkun smokka auki á eyðnivandann í Afríku er ekki lokið. Tvö stórblöð hafa opinberlega gagnrýnt páfa fyrir ummælin

Lét páfinn þau orð falla í þotu sinni að smokkar leystu ekki eyðnivandanna, heldur ykju hann einungis.

Ekki væri nóg að ausa fé í eyðnibaráttu ef sálina skorti í verkefnið.

Ummælin hafa verið gagnrýnd í Frakklandi og sagði í leiðara blaðsins Le Monde að þau væru óábyrg.

Þá sagði í Washington Post að ummæli páfa væru afar óheppileg og látin falla á sama tíma og hann væri að heimsækja þann hluta Afríku sem hefði orðið hvað verst út úr eyðnifaraldrinum.

Um 33 milljónir manna eru nú með eyðniveiruna, þar af um tveir af hverjum þremur í Afríku. Um 25 milljónir manna hafa látist af völdum hennar í heiminum.

Vatíkanið hefur komið páfa til varnar og sagt hann einfaldlega hafa verið að ítreka stefnu forvera síns í málinu.

Páfinn teldi að skírlífi og öruggt kynlíf karls og konu væru bestu vopnin á móti veirunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert