Verkföll um allt Frakkland

Frá mótmælunum í janúar.
Frá mótmælunum í janúar. JACKY NAEGELEN

Hundruð þúsunda franskra verkamanna búa sig nú undir að taka þátt í verkfalli á landsvísu í Frakklandi. Verkalýðsfélög þar í landi mótmæla nú af miklum móð stefnu Nicolas Sarkozy forseta í efnahagsmálum, tvær milljónir eru atvinnulausar og reiknar er með enn meira atvinnuleysi. Sagt er frá þessu á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC.

Mótmæli hafa nú verið skipulögð í um 200 bæjum og borgum, lokanir blasa við í skólum og almenningssamgöngur gætu orðið fyrir truflunum. Verkalýðsleiðtogar vonast til þess að mótmælin geti orðið stærri en þau sem haldin voru í janúar, þegar um milljón manna tók þátt. Krafan er sú að meira verði gert til þess að vernda störf fólks og launakjör.

Þrír fjórðu hlutar frönsku þjóðarinnar styðja verkfallið samkvæmt skoðanakönnunum. Mótmælendur ákalla forsetann um að falla frá fyrirætlunum sínum um að fækka opinberum störfum og um að hverfa frá skattalækkunum.

Sjálfur segist Sarkozy skilja klemmuna sem verkamenn eru í, en að stjórn hans geti ekki gert mikið meira fyrir þá. Atvinnuleysi gæti farið yfir 10% innan næstu tólf mánaða, enda búist við allt að 350.000 uppsögnum til viðbótar á þessu ári.

Fréttaritari BBC í París, Jane Kirby, segir reiði fjölmargra stafa af því að stór fyrirtæki séu nú að losa sig við starfsfólk en tilkynna á sama tíma um methagnað, til dæmis olíufélagið Total.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka