Barclays stakk milljörðum undan

Barclays bankinn
Barclays bankinn Reuters

Barclays bankinn í Englandi græddi allt að einn milljarð punda á ári síðustu árin með því  að skjóta fjármunum undan skatti, ef marka má upplýsingar sem láku út úr bankanum í gær. Þessi nýjasti leki er viðbót við upplýsingar sem láku áður út úr bankanum og voru birtar í blaðinu The Guardian. Vegna þeirrar birtingar hefur málið farið fyrir dómstól í þriggja daga yfirheyrslur og hefur dómstóllinn sett lögbann á birtingu þeirra upplýsinga. Hann stendur enn við það lögbann. Fjallað er um málið á vefútgáfu The Guardian.

Upplýsingarnar sem nú hafa lekið út eru minnisblöð sem uppljóstrari sendi þingmönnum frjálslyndra. Þau ýta undir þá frásögn að bankinn hafi tekið þátt í aðgerðum til að hagnast á undanskotum frá skatti, með flóknu kerfi af félögum á aflandseyjum og skattaskjólum, svo sem Cayman eyjum og í Lúxemborg. Hagnaðurinn af þessu er sagður gífurlegur og leiðirnar svo flóknar að erfitt sé að rata um þær.

Bankinn hefur harðneitað þessum ásökunum og fékk í vikunni úrskurð sem þvingar Guardian til að taka gögn úr bankanum úr birtingu á vef sínum. Nú í morgun staðfesti dómari þetta lögbann með þeim rökum að gögnin innihaldi trúnaðargögn, upplýsingar og lögfræðiráðgjöf. The Guardian er einnig bannað að veita upplýsingar um aðrar leiðir til að nálgast gögnin þar sem þau eru birt opinberlega.

Skattarnir fyrst - viðskiptalegum tilgangi bætt við eftir á

Barclays er sem stendur í viðræðum við fjármálaráðuneyti Bretlands um að fá tryggingar frá stjórnvöldum, eða skattgreiðendum, til að vernda bankann fyrir tapi. Þrýstingur hefur verið mikill á banka að hverfa frá þeirri stefnu að flytja peninga í skattaparadísir, þegar þeir þiggja fé frá almenningi. Royal Bank of Scotland, sem skattgreiðendur eiga nú 70% í, hefur leyst upp þá deild sína sem stóð fyrir því að búa til áætlanir um flótta frá skattinum.

Heimildarmenn The Guardian segja að sumar deildir Barclays bankans hafi einungis snúist um undanskot frá skatti. „Allt sem SCM (e. Structured Capital Markets division) gerir snýst um skatta. Samningarnir byrja á sköttunum en svo er viðskiptalegum tilgangi bætt við þá eftir á. Okkur er sagt að á einu ári hafi SCM grætt 900 milljónir og allt að einn milljarð punda á því að skjóta undan skatti.“

Vince Cable, þingmaður frjálslynda flokksins á þinginu segir um dómsúrskurðinn að hann sé slæmur fyrir lýðræðið. Hann telur að full upplýsing um það hvernig Barclays hafi notað skattaparadísir til að svíkja undan skatti þjónaði almannahag, þar sem skattgreiðendur væri nú látnir ábyrgjast lán til bankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert