Hugsanlegt er að Austurríkismaðurinn Josef Fritzl verði látinn laus eftir fjórtán ár en hann var í gær fundinn sekur um sekur um morð, nauðgun, sifjaspell og að hneppa dóttur sína í ánauð.
Fritzl, sem læsti dóttur sína ofan í kjallara í tæpan aldarfjórðung og eignaðist með henni sjö börn, var í gær dæmdur til ævilangrar fangelsisvistar.
Til stendur að hann verði í næstu viku fluttur úr fangaklefa sínum í St. Pölten á réttargeðdeild Mittersteig í Vín. Þar verður metið hvers konar meðhöndlun hann hafi þörf fyrir og að því loknu verður hann sendur á eina af fjórum réttargeðdeildum í Austurríki.
Fritzl er sagður hafa sagt lögfræðingi sínum Rudolf Mayer að hann vonast til að lifa það að verða látinn laus.
„Það er hugsanlegt að hann veði látinn laus þaðan þar sem ástand hinna innlögðu er metið árlega,” segir Franz Cutka aðstoðarforseti réttarins í gær. „Hann verður þá fluttur í fangelsi þar sem hann mun afplána lífstíðardóminn sem er að lágmarki 15 ár.”
Fritzl, sem er 74 ára, hefur þegar setið í fangelsi úi ellefu mánuði og gæti því hugsanlega fengið lausn eftir fjórtán ár.
Sérfræðingar segja hann þekkja muninn á réttu og röngu en vera mjög tilfinningalega skertan.