Sviss er ekki lengur á svörtum lista Evrópusambandsins yfir skattaskjól. Fjármálaráðuneyti Sviss sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem það fagnaði breytingunni sem jákvæðu merki frá ESB. Ráðuneytið sagði ánægju með yfirlýsingar Mirek Topolanek, forsætisráðherra Tékklands sem fer með forsæti í ráðherraráðinu, í þessa veru.
Topolanek sagði á nýyfirstöðnum leiðtogafundi ESB-ríkja að Sviss, Austurríki og Lúxemborg væru ekki lengur á svörtum lista yfir skattaskjól, þar sem þau hafi lagað sig að reglum sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, hefur sett.
„Skuldbinding ríkisstjórnar Sviss til þess að laga sig að reglum OECD þegar kemur að samvinnu stjórnvalda í skattamálum hefur verið tekin til greina af ESB,“ sagði fjármálaráðuneytið og kallaði það jákvætt merki.
Í síðustu viku tilkynntu stjórnvöld í Sviss, ásamt nokkrum öðrum ríkjum og sjálfstjórnarsvæðum, að þau myndu slaka á lögum sínum um bankaleynd enn frekar, enda hefur þrýstingur á það aukist til muna á alþjóðavettvangi að undanförnu að þjarmað verði að skattaskjólum.