Flugvél Smiths í leitirnar?

Charles Kingsford Smith.
Charles Kingsford Smith.

Framleiðendur sjónvarpsþáttar um hinstu flugferð flugkappans Sir Charles Kingsford Smith telja sig hafa fundið flak vélar hans austur af strönd Búrma. Smith og félagi hans Tommy Pethybridge voru að reyna við heimsmetið á flugleiðinni frá Englandi til Ástralíu þegar vél þeirra hrapaði.

Vitað var að vélin fórst í Bengal-flóa en fram að þessu hefur nákvæm staðsetning verið á huldu.

Ástralski heimildargerðarmaðurinn Damien Lay kveðst hins vegar fullviss um að hafa fundið brakið sem sé á 20 metra dýpi undir sjó og leðju.

Brakið svipi til Lockheed Altair-vélar Kingsford Smith sem fræg varð undir merkjum Lady Southern Cross.

Telur Lay þá staðreynd að aðeins fjórar vélar af þessari gerð hafi verið smíðaðar renni styrkum stoðum undir þá kenningu að þarna sé vélin komin.

Er flakið sagt liggja hjá eyjunni Aye.

Myndir af vélinni voru teknar með úthljóðsbylgjum og stendur til að freista þess að ná vélinni upp á yfirborðið í nóvember.

Talið er að þar sem vélin er í leðju kunni líkamsleifar Kingsford Smiths og Pethybridge að finnast tiltölulega heilar.

Kingsford Smith er goðsögn í Ástralíu og þótt víðar væri leitað en hann hóf glæstan flugferil í fyrri heimsstyrjöldini og átt síðar eftir að setja ýmis þekkt flugmet.

Meðal annars varð hann fyrstur til að fljúga á milli Bandaríkjanna og Ástralíu yfir Kyrrahafið árið 1928.

Fimm árum síðar setti hann hraðamet í einmenningsflugi á milli Ástralíu og Englands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert