Allir fullir í brúnni

Skipstjórinn var fullur og stýrimaðurinn lá sofandi í brúnni þegar lögregla fór í dag um borð í gámaskip sem strandaði við Kaupmannahöfn í morgun. Báðir mennirnir voru handteknir og verða færðir fyrir dómara á morgun þar sem krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim.

Skipið Karin Schepers, sem skráð er á Antigua og Bermúda, strandaði í Eyrarsundi milli Saltholm og Amager Strandpark. Áhöfnin er rússnesk. Hafnsögumaður kom um borð í skipið eftir að það strandaði og þá lá stýrimaðurinn sofandi í brúnni. Hafnsögumaðurinn kallaði lögreglu til sem handtók stýrimanninn. Á meðan kom skipstjórinn á stjórnpallinn og var í lítið betra ástandi. Hann var einnig handtekinn. Annar í áhöfninni var einnig greinilega ölvaður en hann var ekki handtekinn þar sem ekki var talið að hann bæri ábyrgð á strandinu. 

Að sögn Berlingske Tidende strandaði skipið klukkan 9:39 að dönskum tíma en það hafði þá siglt lengi án þess að breyta um stefnu. Stjórnstöð danska sjóhersins hafði þá í um klukkustund reynt að ná sambandi við skipið en án árangurs en ljóst þótti að skipið stefndi á land. Á endanum var þyrla send í loftið til að reyna að vekja athygli áhafnarinnar á yfirvofandi hættu.

Ekki er talið að mengunarhætta stafi af skipinu. Þá stofnar það ekki öðrum skipum í hættu þar sem það er ekki á siglingaleið.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert